Kanna hvort ofurmaurabú lifi undir Reykjavík

Andreas Guðmundsson líffræðingur.
Andreas Guðmundsson líffræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Tegund maura hér á landi leggst ekki í dvala á veturna og getur lifað við erfiðari aðstæður en aðrir maurar. Þetta eru niðurstöður rannsóknar úr lokaverkefni Andreasar Guðmundssonnar, sem útskrifaðist um helgina úr Háskóla Íslands með bakkalárgráðu í líffræði.

Hann hefur um hríð rannsakað maura á Íslandi, og heldur hann m.a. úti vefsíðunni maurar.hi.is ásamt samstarfsfólki sínu. Hann segist líklega ætlar sér nú að fara í meistaranám í greininni, þar sem margt er enn óvitað um maurabú hér á landi.

Hveramaurar.
Hveramaurar. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mjög skemmtilegt að sjá að hverasvæðin gefa sérstakt umhverfi á Íslandi, og jafnvel á heimsvísu, þar sem maurar geta lifað eðlilegu lífi jafnvel við mikinn kulda utandyra,“ segir Andreas, í samtali Morgunblaðið. Hveramaurar finnast víða um landið, einkum á Reykjanesi, sunnanverðum Vestfjörðum og ekki síst í Hveragerði.

Ættarmót undir Reykjavík

Hveramaurarnir eiga sér einnig skyldmenni í höfuðborginni – svokallaða húsmaura, sem eru algengasta maurategundin í Reykjavík. Finnast þeir gjarnan í gömlum húsum, einkum ef lagnirnar hafa ekki verið yfirfarnar og geta þeir maurar lifað inni í veggjum og gólfi. Andreas segir þó að maurarnir séu að mestu leyti skaðlausir.

Andreas, ásamt líffræðingnum Marco Mancini og fleirum, hefur um skeið rannsakað hvort svokallað ofurmaurabú lifi undir höfuðboginni. Ofurbú kallast samfélag maurabúa þar sem allir maurar eru skyldir og líta á sig sem eitt stórt bú.

Andreas segist enn ekki hafa náð að sýna fram á tilvist ofurbús undir borginni en kveðst hafa sterkar vísbendingar um slíkt. „Maurar sem við höfum skoðað víða á höfuðborgarsvæðinu, allt frá Seltjarnarnesi til Kópavogs, virðast ekki slást innbyrðis,“ segir Andreas en það geti hugsanlega bent til þess að maurabúin séu skyld. „Ef sú er raunin virðist það vera eitt stórt bú undir Reykjavík.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert