Katrín: „Þetta er áfellisdómur“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að niðurstaða úr úttekt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á brotum Íslandsbanka við sölumeðferð á 22,5% hlut ríkisins í bankanum sé áfellisdómur. Þetta sagði hún við blaðamenn í Vestmannaeyjum í dag.

Katrín sagði að það þyrfti að skoða sérstaklega að bankinn hefði veitt Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um þessi mál, en Bankasýslan fer með þessi mál fyrir hönd ríkisins.

Katrín sagði að við undirbúning ákvörðunar um að selja hlut í Íslandsbanka hefði lögum og reglum verið fylgt. „Þegar að framkvæmdinni kemur hins vegar er alveg ljóst að það hefur ekki gengið sem skyldi og það er mjög alvarlegt mál,“ segir Katrín.

Minnti hún á að ríkið væri enn stór hluthafi í bankanum og þar með íslenskur almenningur. „Það liggur algjörlega fyrir að stjórnendur og stjórn [Íslandsbanka] þurfa að standa skil á sínum gjörðum gagnvart almenningi.“

Spurð um næstu skref varðandi einkavæðingu bankans sagði Katrín að ekki yrði aðhafst fyrr en allt það fyrirkomulag hefði verið endurskoðað og þessi skýrsla væri einn liður í þeirri yfirferð. Verður nánar rætt um þetta mál í ríkisstjórn á morgun að hennar sögn.

„Eins og ég segi, þetta er áfellisdómur,“ sagði Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert