Öryggisgæslu í kringum sumarfund norrænna forsætisráðherra, sem nú fer fram í Vestmannaeyjum, er stillt í hóf. Ólíkt því hvernig öryggismálum var háttað í kringum leiðtogafundinn sem fór fram í Reykjavík í maí má ekki sjá leyniskyttur á öðru hverju þaki í Vestmannaeyjum.
Fundur forsætisráðherranna fer nú fram í Eldheimum og fengu fjölmiðlar að taka myndir við upphaf fundarins. Þegar blaðamaður mbl.is kom að Eldheimum í morgun voru tveir laganna verðir við innkeyrsluna að bílaplaninu og í fjarska mátti sjá einn lögreglumann, með talstöð, í móanum norður af safninu. Meira var það ekki.
Athygli vakti einnig að í ráðhúsinu í gærkvöldi gátu fjölmiðlar, og hver sem er að því er virtist, valsað inn og út úr ráðhúsinu áður en tvíhliða fundur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hófst.
Öryggisgæslan í Herjólfi var sömuleiðis á rólegri nótunum þó hún hafi verið áberandi mest í kringum Trudeau. Þannig gekk Katrín um Herjólf, í lopapeysu, með forsætisráðherra Norðurlandanna, en þegar Trudeau vildi heilsa upp á skipstjórann var leiðin lokuð af á meðan Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Ulf Kristersson, starfsbróðir hennar í Svíþjóð, þurftu að afsaka sig í gegnum mannfjöldann.
Á fundinum í Eldheimum munu ráðherrarnir ræða sameiginleg málefni Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands, Álandseyja, Grænlands, Færeyja og síðast en ekki síst Kanada.
Málefni frumbyggja á norðurslóðum munu bera á góma, að því er Trudeau sagði, er hann og Jonas Gahr Støre, tóku stutt spjall við fjölmiðla eftir að myndum var smellt af ráðherrunum norðan við Eldheima skömmu áður en fundur hófst.
Eftir að myndatökunni lauk fóru Katrín, Fredriksen og fulltrúar Álandseyja, Grænlands og Færeyja, aftur inn á meðan Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, og Kristersson stilltu sér upp fyrir fjölmiðla. Sama gerðu Trudeau og Støre.