„Maðurinn lætur lífið eftir átök“

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kveður lítið …
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kveður lítið að frétta eftir að maður lét lífið í kjölfar líkamsárásar á skemmtistað í miðborginni um helgina. mbl.is/Júlíus

„Við erum bara með málið í rannsókn og getum ekkert sagt meira um það í bili, maðurinn lætur lífið eftir átök,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um átök og sérstaklega hættulega líkamsárás á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur á fimmta tímanum aðfaranótt laugardags. Maður var fluttur þungt haldinn á bráðamóttöku þar sem hann lést en annar handtekinn, grunaður um verknaðinn.

„Þetta eru bara hlutir sem við erum að skoða, hvernig aðdragandinn og allt saman er,“ svarar Grímur, inntur eftir því hvort tengsl hafi verið milli árásarmannsins og hins látna eða hvort um einhvers konar uppgjör hafi verið að ræða.

„Við erum búnir að vera að rannsaka þetta síðan um helgina en staðan er þannig að það er ekki mikið meira um málið að segja á þessu stigi,“ segir Grímur Grímsson að lokum.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti og kýs Birgir Rúnar Halldórsson þar á bæ að tjá sig ekki um málið. „Af virðingu við fjölskyldu mannsins viljum við ekki tjá okkur um þetta mál. Lögreglan er einnig að rannsaka málið,“ skrifar Birgir í tölvupósti til mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert