Meirihluti íbúa telur illa staðið að húsnæðismálum

Samkvæmt könnun Leigjendasamtakanna ríkir mikil óánægja um húsnæðismál víða um …
Samkvæmt könnun Leigjendasamtakanna ríkir mikil óánægja um húsnæðismál víða um land. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Meirihluti íbúa Reykjavíkur, eða 63,4%, segja borgina hafa staðið sig mjög eða fremur illa í uppbyggingu húsnæðismála. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir Samtök leigjenda á Íslandi um ýmislegt er varðar húsnæðismál.

Könnunin var gerð dagana 15.-22. júní og voru svarendur 966 talsins.

Mikil óánægja á meðal borgarbúa

Í könnuninni, sem unnin var af Maskínu, voru þátttakendur meðal annars spurðir hversu vel eða illa þeim þætti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála.  

Niðurstaðan varð sú að 9,6% sögðu Dag hafa staðið sig mjög eða fremur vel en 65,6% mjög eða fremur illa. 23,8% sögðu Dag hafa staðið sig hvorki vel né illa.

Í könnuninni voru þátttakendur einnig spurðir hvernig þeim þætti Reykjavíkurborg hafa staðið sig í uppbyggingu húsnæðismála, en þá var niðurstaðan sú að 10,9% sögðu að Reykjavíkurborg hefði staðið sig mjög eða fremur vel en 63,4% mjög eða fremur illa. Þá sögðu 25,8% borgina hafa staðið sig hvorki vel né illa.

Eitt mikilvægasta viðfangsefni sveitarfélaganna

Loks var spurt um afstöðu almennings til sveitarstjórna, en þær niðurstöður sýndu einnig fram á talsverða óánægju meðal þátttakenda. Þá sögðu 9,4% að þau hefði staðið sig mjög eða fremur vel en 45,4% mjög eða fremur illa. 45,1% sögðu sveitarfélögin hafa staðið sig hvorki vel né illa.

 „Af þessu má vera ljóst að fáum landsmönnum finnst sveitarfélögin, Reykjavíkurborg eða borgarstjóri sérstaklega standa sig vel í uppbyggingu húsnæðismála, sem þó er að flestra mati eitt allra mikilvægasta viðfangsefni sveitarfélagana, að tryggja íbúum ódýrt og öruggt húsnæði. “ Svo hljóðar fréttatilkynning Leigjendasamtakanna þar sem greint er frá niðurstöðum könnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka