Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni Isavia, vegna dóms sem féll í Landsrétti þar sem dómstóllinn sneri við dómi héraðsdóms og sýknaði flugvélaleiguna ALC og íslenska ríkið af kröfum Isavia, en kröfur félagsins eru upp á 2,5 milljarða króna.
Deilur máls snúa að kyrrsetningu Isavia á Airbus-þotu gegn skuldum flugfélagsins WOW air. Ákvað Isavia að kyrrsetja vélina þar til ALC greiddi allar skuldir WOW sem námu tveimur milljörðum króna. Neitaði ALC að greiða skuldirnar og töldu sig ekki ábyrga fyrir þeim.
Héraðsdómur Reykjaness sagði í úrskurði sínum, frá 2019, að Isavia bæri að afhenda ALC þotuna, en að flugvélaleigunni væri þó gert að greiða skuldirnar sem lágu á vélinni. Taldi dómarinn í málinu ekki ástæðu til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og veitti leyfi til þess að fljúga þotunni úr landi, en Isavia taldi ákvörðun héraðsdómara hafa svipt félagið tryggingu fyrir skuldinni.
Í kjölfarið höfðaði Isavia mál á hendur íslenska ríkinu og ALC, en í niðurstöðu dómsins komst Héraðsdómur Reykjavíkur að því að niðurstaða úrskurðs Héraðsdóms Reykjaness hafi verið rangur.
Kemur fram í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur að dómari hafi litið fram hjá rökstuðningi í úrskurði Landsréttar í sama máli. Taldi dómstóllinn því niðurstöðu dómara hafa orðið til þess að háttsemi hennar yrði að meta til sakar. Íslenska ríkið og ALC var í niðurstöðu dóms héraðsdóms gert að greiða Isavia 2,5 milljarða.
Áfrýjuðu þau málinu til Landsréttar þar sem dóminum var snúið við og komust dómarar að þveröfugri niðurstöðu. Var íslenska ríkið og ALC sýknað af kröfum Isavia í Landsrétti.
Hæstiréttur hefur nú birt ákvörðun sínar þar sem fram kemur að beiðni Isavia um áfrýjunarleyfi hafi verið samþykkt.
Byggir Isavia á því að málið hafi verulegt fordæmisgildi um túlkun nýrra loftferðalaga, sem og gildi úrskurðar Landsréttar sem ómerktur var, og áhrif hans á síðari aðfarabeiðni milli sömu aðila um sama andlag. Vísar félagið einnig til þess að úrslit málsins varði mikla fjárhagslega hagsmuni.
Hæstiréttur tekur undir í ákvörðunni að um fordæmisgefandi dóm sé að ræða og telur að dómurinn geti haft fordæmisgildi meðal annars um ætlaða skaðabótaskyldu ríkisins vegna atvika máls.