Myndband: Hélt það myndi líða yfir fjölskylduna

Páll Magnússon hélt það myndi líða yfir kanadíska fjölskyldu sem …
Páll Magnússon hélt það myndi líða yfir kanadíska fjölskyldu sem rakst óvænt á forsætisráðherra Kanada fyrir utan Herjólf í Vestmanneyjum. Samsett mynd

Kanadískri fjölskyldu brá heldur betur í brún við landgang Herjólfs í Vestmannaeyjum í gær, þegar þau rákust óvænt á forsætisráðherra sinn Justin Trudeau. Páll Magnússon, for­seti bæj­ar­stjórn­ar í Vest­manna­eyj­um, náði atvikinu á myndband og birti á Facebook-reikningi sínum í dag. 

Trudeau er í formlegri heimsókn á landinu um þessar mundir, en hann er sérstakur gestur á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna.  

Páll var sjálfur á leið um borð í Herjólf þegar hann sá atvikið gerast. Fjölskyldan stóð á bryggjunni og var faðirinn íklæddur vindjakka sem á stóð „Kanada“ stórum stöfum og fór því ekki á milli mála hvers vegna fjölskyldan virtist varla trúa eigin augum þegar þau sáu Trudeau í sjónvarpsviðtali við hlið ferjunar. 

Með strangari gæslu en norrænu ráðherrarnir til samans

Fjölskyldan komst ekki nálægt forsætisráðherranum í fyrstu vegna öryggisvarða, en tóku myndir af honum úr fjarlægð. 

„Ég held það hafi verið strangari öryggisgæsla í kring um Trudeau heldur en alla norrænu ráðherrana samtals,“ segir Páll og segir fylgdarlið Trudeau yfirleitt hafa passað að halda fólki í hæfilegri fjarlægð af öryggisástæðum. 

Í þetta sinn hafi Trudeau hins vegar gert sér lítið fyrir og vappað sér upp að fjölskyldunni til að spjalla betur við þau og taka með þeim myndir, á leið sinni um borð í ferjuna, en kveðst Páll hafa haldið að það myndi líða yfir fjölskylduna þegar forsætisráðherrann gekk upp að þeim. 

Kjaftar hver tuska á Trudeau

Páll og bæjarstjóri Vestmanneyja, Íris Róbertsdóttir, brugðu sér í bátsferð með Trudeau og hinum forsætisráðherrunum í gærkvöldi, en Páll segir Trudeau bæði alþýðlegan og skemmtilegan mann, þrátt fyrir allt það umstang sem sé í kring um hann af öryggisástæðum.

„Það kjaftar á honum hver tuska og hann er óformlegur og svona, en í kring um hann er mikið vesen.“

Páll segir forsætisráðherrann hafa verið algerlega heillaðan af náttúrunni í Vestmanneyjum og að ráðherrarnir hafi verið einstaklega heppnir með lundaflug þetta kvöldið og hafi haft einstaklega gaman af því að sjá þúsundir lunda á flugi í kvöldsólinni. 

Sólin braust út á rétta augnablikinu

Þá segir Páll einnig gaman að segja frá því að fundarstaðurinn hafi orðið fyrir valinu af því til­efni að í ár eru 50 ár liðin frá lok­um eld­goss­ins í Vest­manna­eyj­um og hafi tækifærið verið notað til að þakka hinum Norðurlöndunum fyrir þá aðstoð sem þau veittu Vestmanneyjum við enduruppbyggingu. 

„Það var dálítið skemmtilegt að akkúrat þegar var fjallað um það þá braust sólin loksins í gegn og rigningin hætti, en það var alveg hreint búið að rigna hundum og köttum.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert