Rigning dundi á forsætisráðherrum Norðurlandanna og Kanada á árlegum sumarfundi sem haldinn var í Vestmannaeyjum í dag. Við minningarathöfn á Flakkaranum, fyrir ofan Skansinn, göntuðust ráðherrarnir sín á milli um hvaða veðurspá hefði reynst rétt.
Veðurstofa Íslands hafði spáð lítilli sem engri úrkomu fyrir hádegi á mánudag. Það var þó hverju mannsbarni í Eyjum ljóst í morgun að sú spá hefði ekki gengið eftir.
Að því er heyra mátti ráðherrana gantast með hafði norska veðurspáin á YR.no sem Íslendingar líta svo oft til, verið rétt.
Eins og svo oft er með veðurfarið á Íslandi skiptist á skin og skúrir þessar fimmtán mínútur sem ráðherrarnir voru undir beru lofti. Við lok athafnarinnar á Flakkaranum skein sól og líkt og spenntir ferðamenn rifu margir ráðherranna fram símana og mynduðu kletta Vestmannaeyja í bak og fyrir.