Rúta með 16 manns festist í Hellisá á leið inn að Laka í gær. Ekki tókst að ná rútunni upp en öllum í rútunni var bjargað á land og komið í skjól.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi og segir þar að talsverðir vatnavextir hafi verið í ám og lækjum í umdæminu og má búast við að ekki dragi úr þeim næsta sólarhringinn.
Bíll festist á vaðinu í Landmannalaugum og annar í Helliskvísl á Dómadalsleið. Á laugardag festist bíll í Steinholtsá á leið inn í Þórsmörk.