„Stóri lærdómurinn þarna er ekki tæknilegur heldur mannlegur,“ segir Guðmundur Jóhannesson, samskiptastjóri Símans, um bilun á dreifikerfi Símans í Fjallabyggð. Slökkviliðsstjóri á svæðinu, Jóhann K. Jóhannsson, gagnrýndi upplýsingagjöf Símans á meðan á biluninni stóð, en sveitarfélagið var sambandslaust í sjö klukkustundir.
Slökkviliðsstjóri gagnrýndi í dag viðbrögð Símans, eða skort þar á, þegar farsímasamband rofnaði í gær vegna bilunar í dreifikerfi, en Síminn sendi ekki út tilkynningu varðandi bilunina þrátt fyrir beiðni slökkviliðstjóra.
Guðmundur segir Símann harma atvikið og kveðst hafa beðið slökkviliðsstjóra afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins í dag. Hann segir fátt hægt að gera til að koma í veg fyrir að bilanir komi upp, en að réttu viðbragðsferli hafi ekki verið hrint af stað. Öllu jafna nýti fyrirtækið sér vef sinn, samfélagsmiðla og fjölmiðla til að láta vita þegar bilun kemur upp á svo stóru svæði.
„Við þurfum bara að gera betur þegar svona kemur upp, að láta vita. Eins og við gerum allra jafna, enda hluti af því sem við gerum alla daga, en því miður þá klikkaði það í þetta skiptið.“
„Það sem gerist þarna er bara að skilaboðin um alvarleika og áhrif bilunarinnar bárust ekki á rétta staði innanhúss hjá okkur,“ segir Guðmundur. Aðspurður hvort mistökin séu merki um að þjálfun starfsfólks í þjónustuveri sé ófullnægjandi segir hann það geta verið erfitt fyrir t.d. starfsmann í þjónustuveri að lesa úr innanhússtilkynningum um bilanir og alvarleika þeirra.
„Það getur verið þannig að þegar tilkynning kemur um að það sé bilun í einhverjum einum farsímasendi að það séu aðrir sem dekka sama svæði, en þá þarf forsendur til að vita það,“ segir Guðmundur og bætir við að aðeins sé einn stór sendari á svæðinu sem um ræðir og því hafi ekki verið hægt að grípa til slíkra ráðstafanna.