„Slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð gagnrýnir Símann harðlega eftir að bilun kom upp í dreifikerfi fyrirtækisins á Siglufirði, sunnudaginn 25. júní, og gerir alvarlegar athugasemdir við viðbrögð fyrirtækisins. “
Þetta kemur fram í Facebook-færslu slökkviliðsins í Fallabyggð en bilunninnar varð vart klukkan 13:20 í gær og varð til þess að farsímaþjónusta fyrirtækisins datt út með öllu. Bilunin varði í sjö klukkustundir en kerfið var ekki komið inn fyrr en klukkan 20:30.
Í færslunni segir að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá upplýsingar voru þær af skornum skammti.
„Eina leiðin til að ná sambandi fyrir fyrirtækið var í gegnum netspjall á siminn.is og sá þjónustufulltrúi sem þar varð fyrir svörum hafði litlar upplýsingar.“
Þá segir að óskað var eftir að Síminn sendi frá sér tilkynningu vegna málsins, sem fyrirtækið gerði ekki.
„Viðbragðsaðilar, slökkvilið, sjúkraflutningar, björgunarsveitir og lögregla, stóla á að farsímakerfi allra þjónustuaðila virki og þá eru mörg öryggiskerfi og neyðarhnappar tengdir í gegnum farsímanetið. Því er mikilvægt, verði brestur í þjónustu, að sendar séu út upplýsingar um bilun og áætlaðan viðgerðartíma í það minnsta. Þá á einnig að gera viðeigandi ráðstafanir við að koma varakerfi eða varaleið upp svo þjónustan liggi ekki niðri klukkustundum saman.“
Viðskiptavinir Símans í Fjallabyggð gátu ekki hringt eða móttekið símtöl en gátu þó hringt í neyðarlínuna. Ef upp hefði komið atvik hefðu hins vegar skilaboð frá neyðarlínunni ekki skilað sér í síma slökkviliðsmanna eða annarra viðbragðsaðila sem eru í viðskiptum við Símann.
Í færslunni segir að slökkviliðsstjóri reyndi hvað hann gat til að ná sambandi við tæknideild eða upplýsingafulltrúa fyrirtækisins en án árangurs.
„Slökkviliðsstjóri gerir þá kröfu til Símans að útskýra hvað fór úrskeiðis og jafnframt þá kröfu að komi til skerðingar á þjónustu að viðbragðsaðilar og viðskiptavinir séu upplýstir um það og framgang viðgerðar.“