Sýnir hversu óútreiknanlegt ástandið er

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP/Halldór Kolbeins

Áframhaldandi stuðningur við Úkraínu, viðnámsþróttur samfélaga og gervigreind voru á meðal þess sem forsætisráðherrar Norðurlandanna ræddu á árlegum sumarfundi sínum sem fram fór í Vestmannaeyjum í dag. Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, var sérstakur gestur.

Á blaðamannafund eftir hádegi í dag greindu ráðherrarnir frá helstu áhersluþáttum sínum og tóku við spurningum frá fjölmiðlum. 

Nýjustu vendingar í Rússlandi, 36 klukkustunda uppreisn Wagner-hópsins um helgina, bar á góma á fundinum og voru forsætisráðherrarnir sammála um að erfitt væri að meta hvaða áhrif þessi viðburður hefði, eða þá hvort honum væri yfir höfuð lokið.

„Atburðarás helgarinnar sýnir hversu óútreiknanlegt ástandið er. Auðvitað er þetta innanríkismál Rússlands, en öll ríkin hafa fylgst vel með og munu halda áfram að gera svo,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. 

Trudeau sagði að auðvitað hefðu áhrif atburða helgarinnar verið rædd og hvernig þau gætu haft áhrif á Norðurlöndin og Kanada.

Léttleikinn var í fyrirrúmi milli ráðherranna þó umræðuefnin hafi verið …
Léttleikinn var í fyrirrúmi milli ráðherranna þó umræðuefnin hafi verið minna léttari. AFP/Halldór Kolbeins

Beðið eftir inngöngu Svía

Atlantshafsbandalagið og aðild Svíþjóðar og Úkraínu var einnig á meðal þess sem var á dagskrá forsætisráðherrana. Kepptust þeir við að státa sig af því að hafa verið fyrstir til þess að styðja við inngöngu Finna og Svíþjóðar á síðasta ári, en þar sagðist Trudeau hafa vinninginn.

Katrín sagði í samtali við íslenska fjölmiðla síðdegis að erfitt væri að segja til um hvenær Svíar myndu hljóta inngöngu í Nato. Vonir standa til að Svíþjóð hljóti inngöngu fyrir fund bandalagsins í Vilníus í júlí. 

Innganga Úkraínu í Nato var einnig rædd. Katrín sagði á blaðamannafundinum að Ísland styddi inngöngu Úkraínu í Nato en að það væri skilyrðum háð. Trudeau samsinnti því. „Kanada hefur alltaf stutt inngöngu Úkraínu, en ekki fyrr en ákveðnum kröfum hefur verið mætt og þegar aðstæður leyfa,“ sagði Trudeau.

Forsætisráðherrar Noregs og Danmerkur við Eldheima í dag.
Forsætisráðherrar Noregs og Danmerkur við Eldheima í dag. AFP/Halldór Kolbeins

Vikugamall ráðherra

Pettri Orpo, nýr forsætisráðherra Finnlands, sagði á blaðamannafundinum að ástandið í Úkraínu og Rússlandi væri honum efst í huga.

Hann sagði að Finnland myndi halda áfram að styðja við Úkraínu og einnig að fylgjast með nýjustu vendingum í Rússlandi, en Finnland á löng langamæri að Rússlandi.

Í dag er sjöundi dagur Orpo í embætti forsætisráðherra.

Petteri Orpo hefur verið forsætisráðherra í slétta viku.
Petteri Orpo hefur verið forsætisráðherra í slétta viku. AFP/Halldór Kolbeins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka