„Það er eitt af lykilmarkmiðum okkar, að styrkja umgjörðina í kringum íslenska fjölmiðla út af þessum umfangsmiklu breytingum sem hafa átt sér stað varðandi tekjumódel þeirra og hnattvæðingu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is
Lilja hefur sett á laggirnar tvo starfshópa, annars vegar til þess að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins og þá sérstaklega stöðu ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði og hins vegar til þess að athuga gjaldtöku erlendra streymisveitna, segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Við sjáum að í kringum 50% af öllum auglýsingatekjum á Íslandi í dag fara inn á efnisveitur og á samfélagsmiðla sem eru erlendir, þannig að þær tekjur sem íslenskir fjölmiðlar gátu áður sótt sér, eru ekki lengur til staðar,“ segir hún spurð út í vandann sem innlendir fjölmiðlar hafa átt við.
„Flest Evrópuríki eru að setja skyldur á þessar efnisveitur í því formi að það er tekið aukið gjald af þeim, sem er síðan nýtt inn á þennan innlenda markaði,“ segir Lilja en hún segist taka mið af því sem er að gerast erlendis í þessum efnum.
„Nú er komið inn í ríkisfjármálaætlunina áform um að taka upp kerfi sem hvetur Íslendinga til að vera í áskrift að fjölmiðlum,“ segir Lilja en hún áformar að hafa skattalegar ívilnanir sem hvetja Íslendinga að vera í áskrift að íslenskum fjölmiðlum en hún áætlar að þær nemi um 400 milljónum króna.
Hún kveðst loks vona að hún verði komin með afgerandi niðurstöðu í þessum málum í haust.