74% þjóðarinnar eru ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. 28% þjóðarinnar eru ánægð með störf Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, og aðeins 22% eru ánægð með störf Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra Íslands.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents.
Mikill munur mælist á ánægju landsmanna með þau þrjú. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar kemur í ljós að aðeins 7% landsmanna eru mjög ánægð með störf Ásgeirs og Katrínar á meðan 45% segjast mjög ánægð með störf Guðna forseta.
Þegar litið er til þeirra sem segjast annað hvort mjög eða frekar óánægðir með störf þessara embættismanna kemur í ljós að Ásgeir Jónsson er óvinsælastur en 55% segjast óánægð með hans störf. Katrín fylgir honum fast á hæla en 52% eru óánægð með hennar störf á meðan aðeins 8% eru óánægð með störf Guðna.
Svarendur voru beðnir um að gefa þessum embættismönnunum einkunn á skalanum 1-5. Ásgeir hlaut að meðaltali 2,4 í einkunn, Katrín 2,5 í einkunn og Guðni 4,1 í einkunn. Konur reyndust ánægðari með störf Guðna og Katrínar, en karlar reyndust ánægðari með störf Ásgeirs en konur.
Prósent gerði könnunina dagana 8.-23. júní og var úrtakið 2.700 manns með 50.1% svarhlutfall.