Andlát: Helgi Kristjánsson í Ólafsvík

Helgi Kristjánsson lést á hjúkrunarheimilinu Jaðri í Ólafsvík síðastliðinn laugardag, 84 ára að aldri. Hann starfaði lengi sem verkstjóri í hraðfrystihúsi, við eigin fiskvinnslu og eigið fyrirtæki við öryggisgæslu. Hann var í áratugi fréttaritari Morgunblaðsins í Ólafsvík.

Helgi Jónsson Kristjánsson fæddist í Hrútsholti í Hnappadal 3. júní 1939, sonur hjónanna Ingibjargar Helgadóttur frá Þursstöðum í Borgarhreppi og Kristjáns Ágústs Magnússonar frá Hrútsholti en þau voru þá að hefja búskap í Hrútsholti. Helgi ólst upp í foreldrahúsum, lengst af á Ferjubakka 1 í Borgarfirði, bæ sem kallast Trana. Hann lauk landsprófi frá Reykholtsskóla.

Helgi fór ungur að vinna við slátrun í Borgarnesi, fljótlega sem akkorðsmaður í fláningu og síðar sem sláturhússtjóri hjá Verslunarfélaginu Borg. Á vetrum fór hann á vertíð, til Vestmannaeyja og síðar til Ólafsvíkur.

Helgi kvæntist Sonju Guðlaugsdóttur úr Ólafsvík á árinu 1964 og stofnuðu þau heimili í Ólafsvík. Hann starfaði í mörg ár sem verkstjóri í Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur, tvö ár í Sparisjóði Ólafsvíkur og var síðar lengi í stjórn sjóðsins og síðast stjórnarformaður. Þá rak hann eigin fiskvinnslu í nokkur ár en lauk starfsferli sínum með því að reka Öryggisþjónustuna í Snæfellsbæ. Helgi var fulltrúi í hreppsnefnd Ólafsvíkur og síðar í bæjarstjórn Snæfellsbæjar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tólf ár og var einn af stofnendum Lionsklúbbs Ólafsvíkur. Hann stundaði tómstundabúskap með fé.

Sonja lést á árinu 2009. Þau eignuðust sex börn en tvö þeirra létust sem ungbörn. Þau sem upp komust eru Guðlaugur Gunnarsson, sonur Sonju og stjúpsonur Helga, Kristján Freyr, Ingi Fróði og Ísafold.

Helgi var í áratugi fréttaritari Morgunblaðsins í Ólafsvík. Við leiðarlok færir blaðið Helga þakkir fyrir góð störf og vináttu við starfsmenn þess og sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka