Hermann Nökkvi Gunnarsson
Krufningarskýrsla til bráðabirgða mun liggja fyrir á morgun í manndrápsmálinu á þrítugum litháískum karlmanni, sem átti sér stað í miðbænum á fimmta tímanum aðfaranótt laugardags.
Lögreglan mun í kjölfar skýrslunnar meta hvort að hún fari fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir karlmanni sem var handtekinn.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Átök brutust út á milli tveggja karlmanna með þeim afleiðingum að einn lést. Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti. Maðurinn í haldi lögreglu er Íslendingur á þrítugsaldri. Engum vopnum var beitt í árásinni og virðast ekki vera tengsl á milli mannanna.
Karlmaður var handtekinn tengslum við manndrápið aðfaranótt laugardags og var síðdegis sama dag úrskurðaður í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjavíkur til 29. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.