Evrópumál rædd á 1.500 manna ráðstefnu

Hátt í 1.500 manns sækja ráðstefnuna sem stendur yfir dagana …
Hátt í 1.500 manns sækja ráðstefnuna sem stendur yfir dagana 27.-29. júní. mbl.is/Sigurður Bogi

Ein fjölmennasta ráðstefna sem haldin hefur verið í Háskóla Íslands hófst í dag og stendur til fimmtudags. Hana sækja hátt í 1.500 manns víðsvegar að úr heiminum og er þetta í 29. skiptið sem hún er haldin.

Ráðstefnan ber heitið International Conference of Europeanist og er á vegum The Council of European Studies (CES). Hún er tileinkuð rannsóknum tengdum Evrópu samtímans yfir afar breitt svið. Er yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni Fortíð, nútíð og framtíð Evrópu: Fyrirmyndaríki eða helvíti. 

Fræðimenn á sviði félags- og hugvísinda víðsvegar að úr heiminum sækja ráðstefnuna, en stærsti hluti þeirra kemur þó frá Evrópu og Bandaríkjunum. Það hefur þó færst í aukana að fólk frá öðrum löndum sé farið að mæta á ráðstefnuna, segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði og einn af aðalskipuleggjendum ráðstefnunnar. „Þ má kannski segja að í grunninn það sem sameini fólk sé áhugi á Evrópumálum og að skilja helstu áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir út frá þverfræðilegu sjónarhorni,“ segir hún. 

Málefni sem snerta alla 

Mál- og vinnustofur eru haldnar á ráðstefnunni þar sem fengist er við allskyns málefni, líkt og öryggismál, jafnréttismál, þjóðernishyggju og stríðið í Úkraínu svo fátt eitt sé nefnt. „Sumt af því sem er að fá mikla athygli eru málefni eins og til dæmis ójöfnuður og þá er hægt að skilgreina hann á milli allskonar mismunandi hópa. Það er líka verið að tala um fólksflutninga og innflytjendur. Svo að sjálfsögðu er stríðið í Úkraínu í nokkuð stóru hlutverki,“ segir Sigrún. 

Að sögn Sigrúnar er leitast við á ráðstefnunni að finna hvernig hægt er að nota fræðin til þess að skilja og greina hvað er að gerast í Evrópu út frá þverfaglegu sjónarhorni. Hvað sé hægt að læra frá til dæmis stjórnmálafræði annars vegar og félagsfræði hins vegar, og hvernig sé best að nota þekkinguna til þess að skilja áskoranirnar. 

Fjölbreytt fólk og fræðigreinar 

Tveir meginviðburðir fara fram í tengslum við ráðstefnuna Annar þeirra nefnist In Europe, Where You Stand Depends on Where You Sit. Presidents and Academics, Nationalism and Objectivity“. Þar mun Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Ísland, flytja ávarp sem og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem fer með lykilerindi. Þar að auki mun Sigrún ávarpa gesti og Ari Eldjárn grínisti mun að lokum vera með skemmtiatriði. 

Einnig fer fram viðburðurinn Ukraine’s Past, Present, and Future: Utopias and Dystopias."  Þar er á ferðinni pallborð þar sem innrás Rússa í Úkraínu verður í brennidepli. 

Segir Sigrún að markmiðið með ráðstefnunni sé að finna leið til þess að skilja mismunandi áskoranir með því að setja saman fólk í mismunandi fræðigreinum og frá mismunandi löndum. „Hvað getum við lært frá hvort öðru og hvernig við getum svo farið með þá þekkingu aftur inn í okkar samfélög,“ segir hún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka