Flýtimeðferð vegna haugsins

Lóðarhafinn býður íbúum upp á gluggaþvott.
Lóðarhafinn býður íbúum upp á gluggaþvott. mbl.is/Arnþór

Óskað verður eftir flýtimeðferð hjá byggingafulltrúa til þess að grjót- og jarðvegshaugurinn við Álfabakka 2a minnki svo um muni á næstu dögum eða vikum. Þá mun lóðarhafi bjóða íbúum í Árskógum upp á gluggaþrif þegar haugurinn er farinn.

Þetta kemur fram í svari frá Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra hjá Reykjavíkurborg við fyrirspurn mbl.is.

Íbúar við Árskóga hafa viðrað óánægju sína vegna haugsins við Álfabakka 2a og segja að hann byrgi þeim sýn og drulla fjúki inn um alla glugga sé ekki blankalogn.

„Við eig­in­lega von­umst eft­ir rign­ingu á hverj­um vegna þess að ef það hreyf­ir vind þá eru drullug­us­urn­ar bara inn­an um glugg­ana og alls staðar,” sagði Karlotta Jóna Finnsdóttir, íbúi á svæðinu, í samtali við mbl.is.

Áætlað að framkvæmdum ljúki um mitt næsta ár

Í svari Evu Bergþóru kemur fram að lóðinni við Álfabakka 2a hafi formlega verið úthlutað á fundi borgarráðs þann 12. júní. Þá verði efnishaugurinn á lóðinni notaður í vegaframkvæmdir og til jarðvegsskipta. Til standi einnig að byggja fjórtán þúsund fermetra þjónustu- og verslunarhúsnæði á svæðinu.

Tekið er fram að með því að nota efnið úr haugnum sparist hundruð vöruflutningaferða í gegnum hverfið sem hefði þurft til að flytja efnið kæmi það annars staðar að. Þá muni lóðarhafi bjóða íbúum upp á gluggaþrif þegar haugurinn er farinn.

Lóðin Álfabakki 2a er í eigu Álfabakka 2 ehf. Félagið er í eigu tveggja annarra félaga sem eiga 50% hvort í Álfabakka 2 ehf. Eru það Klettás og Eignabyggð. Klettás er í eigu þeirra Péturs Bjarnasonar og Auðuns S. Guðmundssonar, en Eignabyggð er í eigu Hannesar Þórs Baldurssonar og Brynjólfs Smára Þorkelssonar í gegnum félög þeirra.

Haugurinn fer í taugarnar á íbúum.
Haugurinn fer í taugarnar á íbúum. mbl.is/Arnþór

Svarið í heild sinni má sjá hér að neðan.

„Reykjavíkurborg hefur úthlutað lóðinni að Álfabakka 2a – sjá fundargerð: https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/5%20%C3%81lfabakki%202a%2C%20%C3%BAthlutun%20l%C3%B3%C3%B0ar%20og%20sala%20byggingar%C3%A9ttar.%20MSS22010247.%20%282%29.pdf

Efnishaugurinn sem er á lóðinni núna er að hluta til efni sem notað verður í vegaframkvæmdir sem eru tengdar uppbyggingu á svæðinu og að hluta efni sem lóðarhafi mun nota til jarðvegsskipta á lóðinni áður en farið verður í byggingaframkvæmdir.

Til stendur að byggja ríflega 14 þúsund fermetra þjónustu- og verslunarhúsnæði við Álfabakkann og er búist við að framkvæmdum ljúki um mitt næsta ár. Þar sem efnið á haugnum kemur frá nærliggjandi lóðum sparast mörg hundruð vöruflutningaferðir í gegnum íbúahverfið sem hefði ella þurft til að flytja efnið langar leiðir.

Óskað verður eftir flýtimeðferð hjá byggingafulltrúa svo framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst og ættu íbúar því vonandi að sjá hauginn minnka á næstu dögum eða vikum. Lóðarhafi mun einnig bjóða íbúum gluggaþrif þegar haugurinn er farinn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert