„Jaðarsettir hópar verða oft jaðarsettari í hamförum og faröldrum,“ segir Ásta Jóhannsdóttir, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún telur fötlunarfordóma samfélagsins geta afhjúpast í hamförum og eftirmálum þeirra. Ásta og Kristín Björnsdóttir, prófessor við menntavísindasvið, fara fyrir rannsókninni Fötlun á tímum faraldurs, sem ætlað er að kortleggja stöðu fatlaðs fólks á tímum hamfara og vekja athygli á leiðum til að bæta aðstöðu þess. Ásta fer fyrir rannsókninni.
Covid-19-heimsfaraldurinn var kveikjan að rannsókninni, en þær Ásta og Kristín hugðust skoða þær hamfarir sem faraldrinum fylgdu og þau áhrif sem þær koma til með að hafa á fatlað fólk.
Rannsóknarverkefnið er enn í vinnslu, en nú þegar hafa þær Ásta og Kristín birt grein þar sem þær kortleggja áhrif hamfara. Þar kemur fram að félagspólitískir þættir líkt og fötlun, stétt og kyngervi hafi umtalsverð áhrif á það hvernig hamfarir leika fólk.
Ásta segir að fatlað fólk sé ýmist skilið eftir eða ekki sé gert ráð fyrir því þegar hamfarir dynja yfir. Til dæmis sé hvergi minnst á fatlað fólk í viðbragðsáætlunum almannavarna.
„Ég hugsa að lærdómurinn í þessu sé að alvöru samráð sé haft við hópinn sem um ræðir,“ segir Ásta, en hún vonast til þess að hægt verði að eiga í samtali með hagsmunasamtökum við almannavarnir, ráðuneyti og sveitarfélög svo að hægt sé að standa betur vörð um hagsmuni fatlaðs fólks í framtíðinni.