„Það er algjörlega fráleit hugmynd ef stjórnendur Íslandsbanka fylgja ekki lögum og ekki eigin reglum, að þá eigi ráðherra að segja af sér,“ segir Bjarni spurður um það hvort hann telji bankasöluna vera tilefni fyrir hann til þess að segja af sér.
Pólitískir andstæðingar hafa sagt Bjarna bera ábyrgð í málinu. Þannig sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, m.a. að Bjarni beri ábyrgð þar sem lög hafi verið brotin skv. niðurstöðu skýrslu Fjármálaeftirlitsins.
Bjarni segist ekki ætla að axla ábyrgð á þeim brotum sem stjórnendur Íslandsbanka hafa gengist undir sátt vegna.
„Auðvitað hef ég ávallt sagt að ég beri pólitíska ábyrgð á ferlinu og þeim ákvörðunum sem ég hef tekið. Ég stend með þeim ákvörðunum og þær hafa komið til skoðunar. Meirihluti þingsins tók þær til umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu að lögum og reglum hafi verið fylgt,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Bjarni sagði í gær að bankinn hefði augljóslega brugðist því trausti sem honum var sýnt sem þátttakanda í þessu ferli við að framkvæma sölu á eignarhlut ríkisins. Sagði hann það mikil vonbrigði.