Innviðaráðuneytið hefur úrskurðað að gjaldskrá Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir sundlaugina og íþróttamiðstöðina Borg sé ólögmæt.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að gjaldskrá sveitarfélagsins sé ekki í samræmi við jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og þar af leiðandi ólögmæt.
Ráðuneytinu barst erindi árið 2021 vegna meintrar mismununar í gjaldtöku í sundlaug og íþróttamiðstöð á Borg. Þar kom fram að íbúar sveitarfélagsins fengu árskort á þrefalt lægra verði en aðrir, samkvæmt gjaldskrá sundlaugarinnar.
Ráðuneytið gefur þau fyrirmæli í áliti sínu að sveitarfélagið skuli breyta gjaldskrá sinni og færa hana í lögmætt horf.
Sveitarfélagið svaraði ráðuneytinu þannig að mismununin væri byggð á málefnalegum ástæðum.
Afsláttur á sundkortum hafi verið til þess að auka lýðheilsu íbúa sveitarfélagsins og almenna hreyfingu.