Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kvartar ekki yfir verkefnaskorti eftir daginn en í kerfi hennar voru 87 mál skráð á tímabilinu frá klukkan fimm í morgun til jafnlengdar síðdegis. Snerist eitt þeirra um tvo menn sem burðuðust með tvær þungar verkfæratöskur.
Við eftirgrennslan kom í ljós að brotist hafði verið inn í geymslur í nágrenninu og verkfærunum stolið þaðan. Voru mennirnir handteknir.
Þá var tilkynnt um innbrot og þjófnaði úr bílskúr í hverfi 105 en þaðan hafði meðal annars verið stolið golfkylfum og hjóli. Gerendur eru óþekktir í því máli. Í hverfi 108 var ökumaður stöðvaður sem reyndist sviptur réttindum til aksturs. Var málið afgreitt á vettvangi.
Annar ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Var sá látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.