Hæstaréttarlögmaður í buxnamálið

Eins og í golfi gilda strangar reglur um buxur hestamanna. …
Eins og í golfi gilda strangar reglur um buxur hestamanna. Konráð Valur er sjötti frá hægri á myndinni og virðist í fyrstu ekki skera sig mikið úr í örlítið blárri buxum en aðrir. Fyrir þetta brot var honum þó vísað úr landsliðinu en lögmaður hans og Óskar Sæberg lögfræðingur hafa leitt að því líkur að brottrekstrarsök Konráðs snúist um annað og meira en buxur. Um þetta þegir stjórnarfólk Landssambandsins þó þunnu hljóði. Ljósmynd/Landssamband hestamannafélaga

„Forsvarsmenn Landssambands hestamannafélaga og þeir sem hafa með landsliðið að gera hafa fengið fyrirspurnir frá mér en eru viljandi að hunsa þær og verði mér ekki svarað er næsta víst að farið verði í harðari aðgerðir.“

Þetta segir Stefán Karl Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður hjá KRST lögmönnum, í samtali við mbl.is en hann fer með mál knapans brottrekna, Konráðs Vals Sveinssonar, sem mbl.is hefur nýlega fjallað um.

Segir Stefán að af þeim fátæklegu gögnum, sem honum hafa borist um málið, megi draga þær ályktanir að Konráð einn geti ekki sætt tiltali eða viðurlögum vegna þeirra brota sem honum eru borin á brýn „og væri gaman að sjá hverjir aðrir hafa fengið slíkt tiltal eða áminningar. Ef slíku er ekki til að dreifa er alveg ljóst að þetta beinist að honum sem persónu miklu frekar en íþróttamanni,“ segir Stefán að lokum.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mbl.is náðist ekki í Berglindi Karlsdóttur, framkvæmdastjóra Landssambands hestamannafélaga, vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka