„Algjörlega óbærilegt“, „ótrúlega heitt og óþægilegt“ og „hræðilega heitt“ er meðal þess sem erlendir ferðamenn hafa að segja um flugferðir sínar með Icelandair. Upplýsingafulltrúi flugfélagsins kannast ekki við að kvartanir vegna hitastigs hafi aukist.
Í Facebook hópum á borð við Iceland - Tips for travelers, Iceland Trippers Planning Tips And Inspiration og Travel Iceland hefur nokkuð borið á því að erlendir ferðamenn kvarti yfir of háu hitastigi um borð í flugvélum þegar flogið er með Icelandair.
Um 188 þúsund manns eru samanlagt í hópunum þremur. Þar telja sumir að hátt hitastig í flugvélum Icelandair sé eingöngu í Boeing 737 MAX 8 vélunum.
Blaðamaður talaði við nokkra þeirra sem höfðu slæma sögu að segja.
Sabrina er ein þeirra en hún flaug ásamt manni sínum og dóttur frá Chicago-borg í Bandaríkjunum til Keflavíkur í lok mars. Þau flugu svo til baka í byrjun apríl.
„Hitastigið í báðum ferðum var algjörlega óbærilegt. Maðurinn minn og barn klæddust bæði stuttermabolum í fluginu heim og voru samt að svitna. Flugþjónarnir héldu því fram að það væri ekkert sem hægt væri að gera þrátt fyrir það að fjöldi farþega hafi kvartað yfir hitastiginu,“ segir Sabrina.
Susan flaug frá Orlando-borg í Bandaríkjunum til Keflavíkur í lok maí.
„Það var ótrúlega heitt og óþægilegt. Við gátum ekki komið okkur þægilega fyrir. Við spurðum flugþjóninn hvort þau gætu gert eitthvað en okkur var í rauninni sagt nei, vegna þess að þá yrði of kalt aftarlega í flugvélinni,“ segir Susan.
Í lok maí flaug Kira frá Washington-borg til Keflavíkur.
„Það var hræðilega heitt og mjög óþægilegt. Ég trúi því sannarlega að loftkælingin hafi verið biluð. Það fannst varla nokkuð loft koma úr úr stútunum í loftinu. Öllum var heitt og leið ömurlega,“ segir Kira.
Leslie segir flugferðina í mars frá Orlando til Keflavíkur hafa verið þá heitustu lífs hennar.
„Við flugum til Íslands frá Orlando [til Keflavíkur] og flugið þangað var ömurlega heitt! Mér er venjulega alltaf kalt en ég var komin á nærbolinn. Við drukkum allt vatn í vélinni um 2-3 klukkutímum áður en við lentum. Þetta var heitasta flugferð lífs míns en ég er venjulega að frjósa úr kulda,“ segir Leslie.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í skriflegu svari mbl.is að ekki hafi borið á auknum ábendingum um hitastig um borð í flugvélum Icelandair.
„Hitakerfi flugvéla eru þannig að erfitt getur reynst að halda jöfnu hitastigi um borð og sama hitastigi framarlega og aftarlega. Þannig geta myndast aðstæður þar sem heitara er á ákveðnum stöðum og kaldara á öðrum. Á þetta jafnt við um allar flugvélar og því er það ekki bundið við eina flugvélategund eða eitt flugfélag,“ segir Guðni.
Hann segir einnig að fólk hafi mismundi skoðanir á hitastiginu um borð í flugvélum. Hægt sé að stilla hitann og iðulega sé reynt að verða við óskum farþega, bæði til að hækka hann og lækka.