Marga ketti vantar heimili

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta, segir hætt við að kattaathvörf …
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta, segir hætt við að kattaathvörf landsins springi ef ekki er gripið til aðgerða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi vergangskatta á Íslandi hefur aukist gríðarlega í kjölfar þess að létt var á takmörkunum Covid-19-heimsfaraldursins. Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta, segir hætt við að kattaathvörf landsins springi ef ekki er gripið til aðgerða.

Dýraverndunarfélagið Villikettir var stofnað árið 2014 í þeim tilgangi að hjálpa villiköttum og vergangskisum. Félagið sinnir bæði villiköttum og vergangsköttum, en Arndís segir samtökin hafa tekið á móti talsvert fleiri vergangsköttum að undanförnu.

„Ef þetta heldur svona áfram með vergangskisur, þá springur okkar batterí,“ segir Arndís, en mikill fjöldi vergangskatta hefur komið inn á borð Villikatta að undanförnu.

Heimaskapað vandamál

Að sögn Arndísar er fjölgun vergangskatta heimaskapað vandamál. „Í fyrra voru þetta um 200 villikettir og 600 vergangskisur sem við tókum á móti,“ segir Arndís. Hún segir mikla fjölgun vergangskatta hafa átt sér stað í kjölfar heimsfaraldursins.

„Margir tóku að sér kisu í covid, en svo var öllum takmörkunum aflétt og þá var kisunni hreinlega hent út. Svo gerist það oft að fólk flytur og fer kannski í húsnæði þar sem kisur eru ekki leyfðar, en þá skilur fólk þær hreinlega eftir.“

Arndís segir það skipta miklu máli að kettir séu bæði örmerktir og geldir. „Ef kisa er ekki örmerkt þá getum við ekki komið henni heim til sín, og ef þær komast ekki í okkar hendur, þá myndast nýjar villikattanýlendur mjög hratt. Vergangskisur geta ekki bjargað sér eins vel og kisur sem eru fæddar úti og er þetta því ömurlegt fyrir dýrin.“

Hún segir brýna þörf á því að herða á reglugerðum um eignarhald á köttum svo hægt sé að taka á vandamálinu. „Við erum svo tilbúin að koma og setjast niður með sveitarfélögum svo hægt sé að móta reglur í hverju sveitarfélagi fyrir sig um eignarhald á köttum. Þá erum við ekki að horfa til fjölda, heldur mikilvægis þess að kisur séu bæði geldar og örmerktar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert