Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu segir að enn logi í húsinu við Blesugróf, og hefur það nú hafist handa við að rífa þakið af. Ekki er talið að slys hafi orðið á fólki í eldinum.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út fyrr í kvöld, en sagt var að mikill eldur geisaði vegna sprengingar í Blesugróf við Bústaðarveginn. Samkvæmt fulltrúa slökkviliðsins var ekki talið að neinn hefði enn verið í húsinu þegar slökkvistarf hófst, en sjónarvottar sögðu mbl.is að íbúar þess hefðu komið hlaupandi út þegar eldsins varð vart.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er enn ekki vitað hver nákvæm upptök eldsins eru, en talið er að um sprengingu sé að ræða. Um er að ræða lágreist tveggja hæða timburhús og er mikill eldur í þaki hússins.
„Aðgerðir eru bara að hefjast og við erum bara að átta okkur á hlutunum. En við erum með allar stöðvar á staðnum og mikill eldur og reykur í húsinu,“ sagði fulltrúi slökkviliðsins fyrr í kvöld.
Uppfært kl. 20:35: Slökkviliðið telur sig hafa náð tökum á eldinum, en byrjað var að taka þakið af húsinu vegna slökkvistarfa um áttaleytið.
Uppfært: 21:40: Enn logar í húsinu, en slökkviliðið vinnur nú að því að rífa húsið og hefur þakið þegar verið rifið af. Fulltrúar slökkviliðsins sögðust ekki vita til þess að fólk hefði slasast í tengslum við eldinn.
Hér má sjá myndband sem tekið var fyrr í kvöld þegar eldurinn var tiltölulega nýkviknaður.