Síaukinn ferðamannastraumur hefur verið að Hrunalaug í nágrenni Flúða undanfarin ár. Hafa eigendur staðarins því ákveðið að fara í gagngerar endurbætur á svæðinu. Búið er að gera deiliskipulag sem verið er að vinna eftir.
„Hvert skref sem þarna er tekið er reynt að hugsa út frá því að missa ekki náttúrurómantíkina sem staðurinn býr yfir og svo margir hafa notið í gegnum tíðina,“ segir Helena Eiríksdóttir, einn eigenda staðarins.
Þetta árið kom laugin frekar illa undan vetri og því þurfti að fara í mikla vinnu við að laga svæðið. Laga þurfti gamla fjárbaðið sem er fyrir framan kofann og allmikið af hleðslum þurfti að endurhlaða. Helena segir að síðustu ár hafi aðsókn að staðnum margfaldast og því hafi verið ljóst að fara þyrfti í framkvæmdir til að halda staðnum við. Þá hefur verið hafin formleg gjaldtaka fyrir gesti laugarinnar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.