Gul viðvörun tekur gildi á hádegi í dag á Suður- og Suðausturlandi vegna hvassviðris. Viðvaranirnar gilda til klukkan 20 í kvöld. Búast má við vaxandi norðaustan- og austanátt, 15-23 m/s og rigningu.
Í öðrum landshlutum má búast við 8-13 m/s og þá fer að rigna alls staðar á landinu undir kvöld. Dregur úr vindi og úrkomu suðaustantil seint í kvöld.
Hiti verður á bilinu 10 til 20 stig, hlýjast norðanlands í dag, en suðaustanlands á morgun.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að ört vaxandi lægð nálgast landið úr suðri og verður hún skammt suðaustur af landinu í nótt, og þá um 977 mb sem er óvenju lágur þrýstingur miðað við árstíma. Á morgun færist lægðin norður yfir land og grynnist heldur.
„Þessi lægð er þó ekkert á förum, heldur mun hún hringsóla yfir landinu fram að helgi.“