Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að alvarlegir ofbeldisglæpir sem komið hafa upp á síðustu vikum séu mikið áhyggjuefni.
Um helgina lést maður í kjölfar líkamsárásar í miðbæ Reykjavíkur. Í nótt voru fjórir handteknir í tengslum við stunguárás sem gerð var á Austurvelli í gærkvöldi. Þremur var sleppt eftir yfirheyrslu.
Margrét Kristín Pálsdóttir, settur aðstoðarlögreglustjóri og staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is um helgina að lögreglan hefði orðið vör við mun alvarlegri ofbeldisbrot en áður.
Átta manns hafa látið lífið með saknæmum hætti frá því í júní á síðasta ári, að meðtöldu málinu um helgina.
„Ég er að fara að hitta ríkislögreglustjóra nú síðar í vikunni þar sem við munum fara yfir þessi mál,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Guðrún er aðeins búin að vera viku í starfi sem dómsmálaráðherra og segist enn vera að koma sér inn í starfið. Það sé henni ekki efst í huga að ráðast í stefnubreytingar í löggæslumálum eða vopnaburði lögreglunnar.
„Ég hlakka mjög til þess að hitta ríkislögreglustjóra og heimsækja lögregluna. Þau eru okkar helstu sérfræðingar í þessum málum og ég mun auðvitað hlusta gaumgæfilega á hvað þau hafa að segja,“ segir Guðrún.