„Álitsgerðin er auðvitað áfellisdómur yfir þeim sem þar störfuðu. Ítrekuð lögbrot, vísvitandi blekkingar og lygar. Það sér það hvert mannsbarn á Íslandi að slíku fólki er ekki treystandi.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabankans um útboð Íslandsbanka á 22,5% eignahlut ríkisins í bankanum og starfsfólk bankans sem kom að framkvæmd útboðsins. Útboðið fór fram í mars í fyrra.
Nú hefur komið í ljós að lög voru brotin í sölu Íslandsbanka. Liggur einhver ábyrgð hjá fjármálaráðherra?
„Nei ég get ekki séð það,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Hann segir að skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans sé harðorðuð og ítarleg um þá sem framkvæmdu verkið, það er að segja starfsfólk Íslandsbanka.
Spurður um það hvort skýrslan hafi slæm áhrif á traust almennings á fjármálastofnunum segir Sigurður Ingi að ef aðilar fari hvorki að lögum né reglum þá þurfi einhvern veginn að bregðast við því.
Nú voru framin brot og fólk innan bankans græddi á því. Er eðlilegt að þetta endi með sátt sem almenningur borgar á endanum?
„Það er það fyrirkomulag sem er í lögunum. Þó svo að sú sátt liggi fyrir sem er gagnvart bankanum, þá hlýtur bankinn, starfsmenn og stjórnendur hans að þurfa að axla ábyrgð,“ segir Sigurður Ingi.