Það fjölgar sífellt í hópi þeirra grunnskóla, sem bjóða nemendum sínum að þreyta stöðupróf í sundi. Núverandi verklag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að allir grunnskólar borgarinnar bjóði nemendum sínum að þreyta slík próf, samkvæmt Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
„Þetta hefur verið gert í mörgum skólum til nokkurra ára en frá haustinu 2022 var miðað við að allir okkar grunnskólar væru búnir að taka upp þessa breytingu, með breytingunni fá nemendur tækifæri til að ljúka sundnámi með stöðuprófi við lok 9. bekkjar og fá þá aukið val í skólaíþróttum í 10. bekk,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
„Það er bæði almenningur, nemendur og skólafólk sem talar fyrir þessari breytingu en sannarlega eru skoðanir skiptar. Helstu rök þeirra sem eru meðmæltir þessari ráðstöfun er að með þessu sé verið að auka valfrelsi ungmenna þar sem því er viðkomið og mikilvægt að leggja áherslu á fög og hreyfingu sem liggja á áhugasviði hvers og eins.
Þetta er einnig til þess fallið að vinna gegn kvíða ungmenna og vanlíðan sem getur fylgt því að sækja skólasund með tilheyrandi sundklæðnaði og sturtuferðum sem meðal annars hefurbirst í afar lélegri mætingu í sundtíma hjá mörgum unglingnum,“ segir Helgi.
Umræddar breytingar leggjast misvel í fólk. Sumir telja hefðbundina sundkennslu kvíðavaldandi fyrir ungmenni, en öðrum þykir varhugavert að breytingar á sundkennslu séu gerðar á forsendum aukinna þæginda.
„Það eru margir sem gagnrýna þessar breytingar til dæmis í hópi skólafólks og þá sérstaklega íþrótta- og sundkennarar. Þessir aðilar benda á mikilvægi sunds sem alhliða líkamsþjálfun og heilsuuppeldi og á unglingastigi sé skyndihjálp og björgunarsund veigamikill þáttur í kennslunni.
Þá benda margir á að það megi ekki taka allt í burtu sem reynist börnum og unglingum erfitt, þau þurfi að læra að takast á við krefjandi aðstæður. Hópur íþróttafræðinga og sundkennara minnti svo á að þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin í samráði við þá,“ segir Helgi.