Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fundaði með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs og formanni Verkamannaflokksins, um leiðina frá stjórnarandstöðu til ríkisstjórnar.
Í Facebook-færslu greinir Kristrún frá því að Støre hafi hvatt hana til að halda sínu striki og tala fyrir raunhæfum leiðum til að bæta kjör, velferð og efnahag venjulegs fólks.
Hún sagði að atvinnu- og auðlindamál hefðu verið ofarlega á baugi á fundinum og sömuleiðis samhengið á milli skatta og velferðar.
„Norðmenn eru stoltir af norsku leiðinni við nýtingu náttúruauðlinda og við í Samfylkingunni munum án vafa líta til Noregs þegar við setjum af stað nýtt málefnastarf um atvinnu og samgöngur í haust,“ sagði í færslu Kristrúnar og þá þakkaði hún forsætisráðherranum fyrir fundinn.