Dansarinn Þyri Huld Árnadóttir sleit krossband fyrir nokkrum árum og varð það meðal annars til þess að hún uppgötvaði nýtt mataræði. Hún segir að sú reynsla hafi breytt lífi sínu.
„Það var svolítið mikið sjokk að allt í einu gat ég ekki gert neitt. Ég þurfti að vera frá í alveg heilt ár,“ segir Þyri í samtali við Ragnheiði Birgisdóttur í Dagmálum.
Hún segir þó að þrátt fyrir að bataferlið hafi verið langt þá sjái hún ekki eftir því að fara í gegnum svona meiðsli. „Þarna fattaði ég að ég þarf að hugsa um líkamann minn og vera skynsöm.“
Á þessu ári fór hún m.a. í tveggja vikna „hreinsun“ til Puerto Rico þar sem hún kynntist hinu svokallaða lifandi fæði. Hún fann mikinn mun á sér eftir dvölina og varð það til þess að hún breytti um lífsstíl.
„Mér fannst bara eins og ég væri sjálf að spírast,“ segir hún. „Þessi upplifun breytti lífi mínu.“
Þyri heldur reglulega námskeið um lifandi fæði ásamt Hildi Ómarsdóttur en fylgjast má með matarævintýrum Þyriar á Instagram-síðu hennar.