Tjaldapar hefur fest niður rætur sjötta sumarið í röð fyrir utan starfsmannahúsið hjá HS Orku í Svartsengi. Hefur parið verið uppspretta mikillar kátínu hjá starfsmönnum sem segja fuglana vera mikla vini fyrirtækisins.
Marín Ósk Hafnadóttir, umhverfisstjóri hjá HS orku og áhugamaður um fuglafræði, segir þá vera „krúttleg vandræði".
„Starfsmenn verða svolítið harkalega varir við þá og þeir minna á sig reglulega. Á starfsmannahúsinu er gólfsíður gluggi og eiga tjaldarnir það til að ráðast á spegilmyndina sína,“ segir Marín Ósk og bætir við að í starfsmannarýminu sé svefnaðstaða og hafa starfsmenn vaknað við annan tjaldinn goggandi í gluggann.
Tjaldarnir vekja hins vegar ekki bara sofandi starfsmenn heldur eiga þeir það líka til að trufla fundi til að minna á sig.
„Við erum líka með gólfsíða glugga í skrifstofuhúsnæðinu Eldborg. Þar hefur maður mætt þeim í anddyrinu reglulega og stundum gogga þeir í gluggann á meðan fundi stendur.“
Eru þeir þá svolítið til vandræða?
„Þetta eru krúttleg vandræði,“ segir hún og hlær.
Almennt er ungauppskeran á milli tveir til þrír ungar á ári en í ár er aðeins einn ungi. Mávar og hrafnar eru aftur á móti líka í hrauninu og því er þetta ekki endilega öruggasti staðurinn fyrir tjaldana. „Það var hrafn hérna um daginn og þá fór tjaldafjölskyldan með ungann og faldi sig í runnanum.“
Ekkert nafn er búið að festast á parið en sumir hafa kallað þá „Orkutjaldarnir“ og karlinn fengið viðurnefnið „Tjaldur töffari“.