Á milli 300-400 ungmenni komu saman á eftirlitslausri samkomu í Elliðaárdalnum í gær samkvæmt tölvupósti sem foreldrar í Réttarholtsskóla fengu í gegn um frístundargátt Mentor í dag.
Segir í tölvupóstinum að samkoman hafi verið ætluð nemendum sem hefja nám við Menntaskólann við Sund og Menntaskólann í Kópavogi í haust, en hafi endað með um 300-400 unglingum.
Kom þá skýrt fram að samkoman hafi ekki verið skipulögð af menntaskólunum, heldur ungmennunum sjálfum.
Segir i tölvupóstinum að ekki sé þetta í fyrsta sinn sem óæskilega hópamyndun ungmenna eigi sér stað í Elliðaárdalnum og eru foreldrar beðnir um að vera á varðbergi.
„Því miður heyrum við alls ekki alltaf af því þegar þessi partý eru í gangi og eigum því erfitt með að upplýsa foreldra eða bregðast við. Það var eitthvað um að foreldrar væru að skutla unglingum á staðinn í gær svo við vildum þess vegna upplýsa ykkur um hvað væri raunverulega í gangi þarna.“
Í þessu tilfelli hafi félagsmiðstöðin frétt af samkomunni með stuttum fyrirvara og farið á staðinn til að tryggja öryggi unglinganna í þetta sinn.
„Í þessum partýum er engin gæsla, stuðningur eða utanumhald og gríðarlegur fjöldi unglinga að safnast saman, hluti þeirra undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og á slíkum hittingum skapast oft aðstæður sem geta auðveldlega þróast í neikvæða átt.“
Þá er foreldrum bent á Flotann - flakkandi félagsmiðstöð, en úrræðið tekur við af félagsmiðstöðvum í sumarfríi. Er biðlað til foreldra að hafa samband við Flotann ef þeim sé kunnugt um slíka hittinga, aðra óæskilega hópamyndun eða annað sem þau telji áhyggjuefni.
Einnig er bent á að hafa samband sé foreldrum kunnugt um staðsetningar sem vert sé að hafa auga með til að stuðla að öryggi og velferð barna og unglinga.
Hægt er að hafa samband við Flotann í gegnum Instagram, í gegnum netfangið flotinn@rvkfri.is og í símanúmerið 620-5670.