Undirrituðu fimm ára samning við sérgreinalækna

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra undirritaði nýjan fimm ára samning læknafélags …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra undirritaði nýjan fimm ára samning læknafélags Reykjavíkur og sérgreinalækna við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra undirritaði nýjan fimm ára samning læknafélags Reykjavíkur og sérgreinalækna við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) í dag. Willum segir í samtali við mbl.is að um ánægjuleg tímamót séu að ræða. 

„Þetta er í samræmi við stefnu stjórnvalda og stjórnarsáttmála,“ segir hann og bætir við að samningurinn muni lækka greiðsluþátttöku almennings og greiða fyrir og jafna aðgengi, óháð efnahag.

Willum segir að að alltof langur tími sé liðin síðan samningar gengu úr gildi, eða fjögur og hálft ár. 

„Fyrst og síðast er þetta til að tryggja aðgengi að þessari mikilvægu þjónustu fyrir fólkið í landinu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Flókin samningagerð 

Willum segir að samningagerðin hafi verið flókin.

„Ég verð að nota tækifærið og hrósa læknum og Sjúkratryggingum. Þetta var ströng lota. Þetta er flókin samningsgerð. Það þarf að ná utan um verk allra þessara ólíku sérgreina og ná utan um einingarnar, magnið og verðið.“

Þá nefnir hann að í heimi læknavísindanna er stöðug þróun og því þurfi að ná utan um verkefnin sem SÍ greiðir fyrir. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru ýmis nýmæli í þessu sem lúta að nýsköpun, fjarlausnum og framþróun í læknisfræðinni,“ segir Willum og nefnir að vægi samstarfsnefndar sé aukið í þessum samningi. 

„Þannig að það er raunverulega samningurinn, þróunin, kostnaðarmat og þarfagreining sem er stöðugt vöktuð. Ef upp koma einhver frávik á samningstíma þá er það í höndum samstarfsnefndar að greiða úr því jöfnum höndum.“

Tekur í gildi 1. september 

Hvenær getur almenningur átt von á að finna fyrir greiðsluþátttöku ríkisins í þessu?

„Bara þá og þegar. Nú á auðvitað bara eftir að ganga frá samningstextanum og svona, hann er bara í yfirlestri en hann er í raun og veru samþykktur. Til þess komum við saman hér og handsöluðum hann og skrifuðum undir. En gildistíminn er 1. september, en við ættum að geta mögulega, á milli Sjúkratrygginga og lækna, slegið aukagjöldin af fyrr,“ segir Willum og nefnir að almenningur finni því fyrst fyrir því að ekki séu aukagjöld. 

„Við þurfum að tryggja framvegis að það sé alltaf í gildi samkomulag um þessa mikilvægu þjónustu fyrir fólkið,“ segir heilbrigðisráðherra að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka