Hass var um borð í skútunni sem var dregin í land á laugardaginn í Sandgerðishöfn. Lögreglan er ekki tilbúin að gefa upp hversu mikið magnið var, að svo stöddu.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, í samtali við mbl.is. Þrír karlmenn voru handteknir á laugardag grunaðir um að hafa ætlað að flytja fíkniefni til landsins í skútu.
Mennirnir hafa allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 4. júlí. Tveir þeirra voru handteknir um borð í skútunni og sá þriðji í landi skömmu síðar.
Mennirnir eru á mismunandi aldri og eru ekki íslenskir. Sá elsti er fæddur árið 1970 og sá yngsti 2002. Grímur segir lögregluna vita uppruna þeirra en kveðst ekki tilbúinn að gefa hann upp að svo stöddu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, Landhelgisgæslan, sérsveit ríkislögreglustjóra og tollgæslan tóku þátt í aðgerðinni á laugardag.