Íbúaráð Laugardals hefur fengið afsökunarbeiðni af hálfu mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, Önnu Kristinsdóttur, eftir að í ljós kom að tveir starfsmenn reyndu að afvegleiða eða forðast spurningar um dagvistunarmál á fundi íbúaráðs 12. júní síðastliðinn.
DV greindi fyrst frá málinu.
Anna sagði á fundi íbúaráðs á mánudag að henni þætti málið óboðlegt og baðst afsökunar. „Ég ætla að byrja á því að biðjast afsökunar á þessu atviki. Þetta er að mínu viti og minni hyggju óboðleg framkoma sem kom fram þarna með þessum ummælum.“
Hún áréttaði að verksvið mannréttindaskrifstofu á íbúaráðsfundum sé ekki að kæfa umræður né taka ákvarðanir. Hún tók það líka fram að starfsmennirnir sem um ræðir séu afleysingarfólk.
„Okkar verksvið er náttúrulega fyrst og fremst að hjálpa til við undirbúning fundanna og almennt skrifstofuhald sem snýr fyrst og fremst að því að ganga frá fundargerðum, ganga frá bókunum og tillögum og koma þeim í réttan farveg. Okkar er ekki að taka neinar ákvarðanir á fundum og hvað þá að við séum á einhvern hátt að reyna að koma í veg fyrir það að eðlileg umræða fari fram og rétt skoðanaskipti hér á þessum vettvangi, bara þannig að það sé sagt,“ sagði Anna.
Á fundinum 12. júní varpaði Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri verkefnisins Hverfið mitt, upp skjá sínum og deildi með útsendingunni og fundarmönnum Facebook-síðu sinni. Þar sást samtal hans og Guðnýjar Báru Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá lýðræðis- og mannréttindastofu Reykjavíkurborgar, af fundinum.
Eiríkur Búi hrósaði sigri í spjallinu eftir fund íbúðaráðsins, þar sem hann hafi komist undan öllum spurningum um dagvistunarmál með eftirfarandi orðum: „Sagði bara don't shoot the messenger and don't hate the player.“
Í spjalli þeirra tveggja kímdi Guðný við eftir þessi ummæli.