Pósturinn hyggst hefja tilraunaverkefni á Kópaskeri þar sem á Kópaskeri þar sem bréfapóstur verður einungis borinn út í póstbox en ekki á heimilisföng viðtakenda.
Verður Kópasker þar með fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem býr við þetta fyrirkomulag.
Í tilkynningu er sagt að um sé að ræða samvinnuverkefni og verður einungis ráðist í það á Kópaskeri til að byrja með.
„Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá íbúum staðarins og byrjum á dreifingunni í júlí,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa.
Þá segir að bréfum sé dreift tvisvar í viku þó að bréfasendingum hafi fækkað verulega, eða um 80% síðan árið 2010.
„Við settum upp póstbox á Kópaskeri síðasta haust sem hefur afkastagetu til að afhenda bæði pakka og bréf á staðnum. Við teljum að skynsamlegra sé að sameina dreifikerfi bréfa og pakka í minni þéttbýliskjörnum með því að nýta póstboxin sem alhliða dreifileið. Við höfum undirbúið þetta verkefni vel í samstarfi við sveitarfélagið svo vonandi fer þetta vel af stað,“ segir Kjartan enn fremur í tilkynningu.
„Á næstu dögum mun hvert heimili fá skráningarblað í pósti. Nöfn allra íbúa heimilisins eru skráð á blaðið og því skilað í póstkassann við Skerjakollu. Miðað er við að einn aðili á hverju heimili sé skráður sem tengiliður fyrir móttöku á almennum bréfasendingum.
Send eru SMS-skilaboð eða tölvupóstur þegar bréf berst í póstboxið. „Viðtakandi hefur þrjá daga til að sækja póstinn en eftir það sækjum við hann og geymum á pósthúsinu á Húsavík. Þá getur viðtakandi haft samband og óskað eftir því að fá póstinn aftur í póstboxið,“ segir Kjartan.