Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu Landsréttar um að Ferðaskrifstofu Íslands verði gert að endurgreiða pakkaferðir þriggja einstaklinga til Ítalíu, sem þeir höfðu afpantað vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.
Í nóvember staðfesti Landsréttur dóma héraðsdóms í máli þremenninganna, en þar tók Landsréttur undir sjónarmið héraðsdóms að ör útbreiðsla veirunnar á áfangastaðnum hefði falið í sér óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður í skilningi laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, sem höfðu afgerandi áhrif á fyrirhugað ferðalag kaupenda og fjölskyldna þeirra.
Gerðu þær aðstæður það að verkum að ekki var öruggt að ferðast til Ítalíu og talið því að þeir sem höfðu fest kaup á pakkaferðinni ættu af þeim sökum rétt til fullrar endurgreiðslu hennar úr hendi ferðaskrifstofunnar, á grundvelli fyrrgreindra laga.
Ferðaskrifstofa Íslands, sem samanstendur af Úrval Útsýn, Sumarferðum, Plúsferðum og Iceland Travel Bureau, var að vonum ósátt með þá niðurstöðu og fór fram á að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar.
Í beiðni sinni til Hæstaréttar sagði Ferðaskrifstofa Íslands að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem selji pakkaferðir eða samtengda ferðaþjónustu. Þá hafi þetta einnig verulega fjárhagslega þýðingu fyrir fyrirtækið og að dómur Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur að efni til þar sem byggt sé á rangri lögskýringu.
Í janúar á þessu ári féllst Hæstiréttur á áfrýjunarleyfið og er niðurstaðan sú að hinn áfrýjaði dómur skuli vera óraskaður.