Ferðaskrifstofan skal endurgreiða pakkaferðirnar

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður, segir í dómi Hæstaréttar.
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður, segir í dómi Hæstaréttar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu Landsréttar um að Ferðaskrif­stofu Íslands verði gert að end­ur­greiða pakka­ferðir þriggja ein­stak­linga til Ítal­íu, sem þeir höfðu afp­antað vegna út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins.

Í nóv­em­ber staðfesti Lands­rétt­ur dóma héraðsdóms í máli þremenninganna, en þar tók Lands­rétt­ur und­ir sjón­ar­mið héraðsdóms að ör út­breiðsla veirunn­ar á áfangastaðnum hefði falið í sér óvenju­leg­ar og óviðráðan­leg­ar aðstæður í skiln­ingi laga um pakka­ferðir og sam­tengda ferða­til­hög­un, sem höfðu af­ger­andi áhrif á fyr­ir­hugað ferðalag kaup­enda og fjöl­skyldna þeirra. 

Gerðu þær aðstæður það að verk­um að ekki var ör­uggt að ferðast til Ítal­íu og talið því að þeir sem höfðu fest kaup á pakka­ferðinni ættu af þeim sök­um rétt til fullr­ar end­ur­greiðslu henn­ar úr hendi ferðaskrif­stof­unn­ar, á grund­velli fyrr­greindra laga.

Ferðaskrif­stofa Íslands, sem sam­an­stend­ur af Úrval Útsýn, Sum­ar­ferðum, Plús­ferðum og Ice­land Tra­vel Bureau, var að vonum ósátt með þá niðurstöðu og fór fram á að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar.

Í beiðni sinni til Hæsta­rétt­ar sagði Ferðaskrif­stofa Íslands að úr­slit máls­ins hefðu veru­legt al­mennt gildi fyr­ir fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu sem selji pakka­ferðir eða sam­tengda ferðaþjón­ustu. Þá hafi þetta einnig veru­lega fjár­hags­lega þýðingu fyr­ir fyr­ir­tækið og að dóm­ur Lands­rétt­ar hafi verið ber­sýni­lega rang­ur að efni til þar sem byggt sé á rangri lög­skýr­ingu. 

Í janúar á þessu ári féllst Hæstiréttur á áfrýj­un­ar­leyfið og er niðurstaðan sú að hinn áfrýjaði dómur skuli vera óraskaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka