Fjórir fullorðnir einstaklingar voru inni í einbýlishúsinu við Blesugróf þegar að eldur kviknaði í húsinu í gær. Allir komust út af sjálfsdáðum og sakaði engan.
Þetta staðfestir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út í gær en húsið varð alelda skömmu eftir að sprenging heyrðist. Um er að ræða lágreist tveggja hæða timburhús.
Að sögn Ásmundar eru eldsupptök enn óljós en lögregla rannsakar vettvang í dag með aðstoð tæknideildar.
Gat hann ekki gefið nánari skýringar á sprengingunni sem heyrðist en hann kveðst vona að rannsóknin í dag geti gefið lögreglu skýrari mynd af því sem gerðist í gær.