Bændum sem færa sig út í ferðaþjónustu hefur fjölgað gífurlega síðustu ár en Sölvi Arnarson, formaður Félags ferðaþjónustubænda og stjórnarmaður í Ferðaþjónustu bænda hf., segir í samtali við Morgunblaðið að búskapur og bóndabæir á landsbyggðinni búi yfir gríðarlegu aðdráttarafli fyrir erlenda ferðamenn sem heimsækja Ísland.
„Íslenska sveitin selur sig bara sjálf,“ segir hann.
Sölvi segir að fleiri bændur en færri séu nú í einhvers konar ferðaþjónustu samhliða búskap. Hann tekur þó fram að meðlimum í félaginu hafi fækkað nokkuð á síðustu árum og segir Félag ferðaþjónustubænda vera barn síns tíma og að breytingar séu í vændum á þeim vettvangi.
„Ferðaþjónustan er orðin það stór atvinnugrein að þeir bændur sem eru í ferðaþjónustu þurfa í raun frekar að vera í Samtökum ferðaþjónustunnar og líka í Bændasamtökunum.“ Aftur á móti bendir Sölvi á að Félag ferðaþjónustubænda hafi stofnað ferðaskrifstofuna „Ferðaþjónusta bænda hf.“ og að þar hafi félögum fjölgað töluvert undanfarin ár.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.