Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi fyrirtækisins Ueno og forsprakki verkefnisins Römpum upp Ísland, tilkynnti í dag að verkefnið myndi teygja anga sína út fyrir landsteinana og rampa upp Evrópu. Fyrsti samstarfsaðilinn til að rampa upp borg sína verður Parísarborg.
Haraldur, deildi mynd á Twitter-reikningi sínum í dag þar sem hann sat fund með borgarstjóra Parísar, Anne Hidalgo, borgarstjóra Reykjavíkur, Degi B. Eggertssyni og aðstoðarborgarstjóra Parísar, Lamia El Aaraje. Fundurinn fór fram á veitingastað Haralds á Tryggvagötunni, Önnu Jónu.
Ekki kom fram í færslunni hvort að fleiri samstarfsaðilar hafi þegar verið ákveðnir eða hversu margir rampar verða byggðir í Parísarborg.
Átakið Römpum upp Reykjavík hófst upphaflega árið 2021 og var þá markmiðið að koma upp 100 römpum í Reykjavík á innan við ári til að auka aðgengi fyrir hjólastólaaðgengi á veitingastöðum, verslunum og öðrum þjónustu stöðum.
Verkefnið hefur síðan stækkað ört, en upprunalegu ramparnir 100 voru byggðir á undan áætlun og undir kostnaðaráætlun og því tekin ákvörðun um að byggja 1000 rampa um land allt á fjórum árum, en sú tala var síðan hækkuð upp í 1500 rampa.
Ekki náðist í Harald, né borgarstjóra Reykjavíkur við gerð fréttarinnar, en í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir borgarstjóri að Hidalgo hafi kynnt sér ýmis verkefni hér á landi, þar á meðal starfsemi Orkuveitunnar og Carbfix. Kveðst borgarstjóri einnig hafa haft milligöngu á milli borgarstjóra Parísar og Haralds varðandi samstarf Parísarborgar við Römpum upp Ísland í undirbúningi fyrir aukið aðgengi á Ólympíuleikunum í París á næsta ári.