Félagarnir Sigurður Þór Sigurðsson og Páll Helgason stofnuðu geisladiska- og spóluverslunina 2001 ehf. 1993 og nú, 30 árum síðar, er nóg að gera hjá þeim í versluninni á Hverfisgötu 49 í Reykjavík.
„Við horfðum til framtíðar, þegar við byrjuðum og litum til kvikmyndarinnar 2001: A Space Odyssey eftir Stanley Kubrick, þegar við völdum nafnið á fyrirtækið,“ segir Sigurður. „Það er sígild mynd og við erum vonandi sígildir.“
Sigurður segir að mikill áhugi í samfélaginu á kvikmyndum og tónlist hafi verið kveikjan að fyrirtækinu. Frá upphafi hafi þeir boðið upp á sígildar og nýjar kvikmyndir og tónlist. Til að byrja með hafi myndefni verið á laserdiskum og vhs-myndbandsspólum en tónlist á cd-diskum og vínyl. Nú sé efnið á blu-ray og 4K-diskum. „Ég held að við seljum mest hérlendis af 4K-diskum,“ segir hann. „Dvd og cd eru enn til staðar og svo hefur vínyllinn gengið í endurnýjun lífdaga.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, 27. júní.