Ísland er efst á lista yfir jafnrétti kynjanna fjórtánda árið í röð. Listinn byggir á niðurstöðum skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) en ráðið birtir árlega skýrslu þar sem litið er til stöðu jafnréttismála á sviði stjórnmála, atvinnu, menntun og heilbrigðis 146 ríkja. Er þetta í sautjánda skiptið sem skýrslan er gefin út.
Af þessum fjórum sviðum eru ríki skemmst komin á sviði pólitískrar valdeflingar kvenna og skarar Ísland þar fram úr með 90,1 stig, en meðaltalið á heimsvísu er 22,5 stig. Eru Ísland og Bangladesh einu löndin þar sem konur hafa gengt æðstu pólitísku stöðu í landinu í fleiri ár en karlar.
Í fyrra var Ísland fyrsta og eina landið sem brotið hefur 90 stiga múrinn en að þessu sinni fékk Ísland einkunnina 91,2. Næstu lönd fyrir neðan eru Noregur með 87,9, Finnland með 86,3, Nýja Sjáland með 85,6 og Svíþjóð með 81,5. Sitja Afganistan, Tjad, Algería, Íran og Pakístan í neðstu fimm sætunum en meðal einkunn allra 146 ríkja er 68,4 stig.
Seinustu ár hefur þó orðið bakslag í jafnrétti kynjanna á heimsvísu en Covid-19 faraldurinn hefur sett strik í reikninginn. Miðað við þróunina mun fullkomið jafnrétti í heiminum ekki nást fyrr en eftir 131 ár, eða árið 2154.