Freyr Thors, nemandi við Fjölbrautaskólann við Ármúla, hlaut fyrstu verðlaun fyrir ljósmynd í alþjóðlegri keppni umhverfisfréttafólks.
Þetta kemur fram í tilkynningu Landverndar sem stendur fyrir keppninni hérlendis. Í keppninni er nemendum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi ætlað að fjalla um málefni sem tengjast umhverfismálum á gagnrýnni hátt, koma með hugmyndir að lausnum og miðla þeim með ólíkum leiðum.
Um 495 þúsund nemendur frá 43 löndum taka þátt í keppninni árlega og er hægt að vinna til verðlauna í nokkrum flokkum. Fór Freyr með sigur úr býtum í flokknum Single Photo Campaign.
Ljósmyndin sem Freyr tók er ætlað að tákna tortímandi neyslu mannkyns. „Karakterinn á að tákna græðgi mannkyns og viðhorf til plánetunnar, samþjappað í einn karakter, eða einhverskonar veru,“ er haft eftir Frey í tilkynningunni.
„Verðlaunin eru mikill heiður fyrir Frey, ljósmyndakennarann Jeannette Castione sem studdi hann með ráðum og dáð og fyrir Landvernd/Grænfánann sem stendur fyrir keppninni hérlendis með verkefninu Umhverfisfréttafólk,“ segir jafnframt í tilkynningunni.