Íslenskir ferðalangar hafa rekið sig á það að þeir hafa ekki komist inn í Bandaríkin, þrátt fyrir að hafa talið sig vera með gilt ESTA, sem alla jafnan veitir Íslendingum inngöngu í landið.
Þegar nánar er grennslast fyrir um málið kemur í ljós að þeir ferðalangar hafa áður ferðast til Kúbu.
Utanríkisráðuneytið segir í tilkynningu að nokkuð hafi borið á því að fólk leiti til borgaraþjónustu ráðuneytisins með vandamál þessu tengt. Bandaríkin settu Kúbu á lista yfir ríki hliðholl hryðjuverkum í janúar árið 2021.
Hafi menn ferðast til slíkra landa áður en þeir hyggjast fara til Bandaríkjanna þurfa menn því framvegis að sækja um vegabréfsáritun hjá bandaríska sendiráðinu. ESTA er ætlað þeim löndum sem ekki þurfa vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og er því óhagræðið af þessu nokkuð. Kúbuferðir geta því dregið dilk á eftir sér.