Lögreglumaður ekki ákærður í lekamáli

Bankastræti club
Bankastræti club mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglumaður sem sakaður var um að leka myndskeiði af stunguárásinni á Bankastræti Club í nóvember á síðasta ári verður ekki ákærður. Þetta kemur fram í svari Friðriks Smára Björgvinssonar, aðstoðarsaksóknara hjá embætti Héraðssakóknara við fyrirspurn mbl.is. 

Segir í svarinu að málið hafi verið metið sem svo að almannahagsmunir krefðust ekki ákæru í málinu.  

Varðar allt að þriggja ára fangelsi

Starfsmaðurinn var sendur í leyfi á meðan rannsókn málsins fór fram en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur hann ekki hafið störf að nýju eftir leyfið. 

Hefði hann verið ákærður eru viðurlög við brotum gegn þagnarskyldu í opinberu starfi allt að þriggja ára fangelsisvist. 

Fór á flakk fyrir mistök

Samkvæmt heimildum mbl.is var myndbandinu fyrst deilt meðal lögreglumanna en myndbandið hafi svo farið á flakk fyrir mistök. Ekki var ætlunin að senda það frá lögreglu til annarra sem ekki komu að rannsókn málsins. 

„Ákæruvaldið taldi að háttsemi kærða hafi varðað við 136. gr. og 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Með vísan til d. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 var ákveðið, þann 28. mars sl., að falla frá saksókn á hendur kærða út af ætluðu broti en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að falla frá saksókn þegar sérstakar ástæður mæla með því að fallið sé frá saksókn, enda verði að telja að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar,“ segir í svarinu frá embætti héraðssaksóknara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka