Rannsókn á meðferð blóðmera felld niður

Hestar í Kerfilsakri við Elliðaárnar. Mynd tengist frétt ekki beint. …
Hestar í Kerfilsakri við Elliðaárnar. Mynd tengist frétt ekki beint. Úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsókn á meðferð hryssna við blóðtöku hér á landi hefur verið felld niður vegna skorts á sönnunargögnum erlendis frá. Lögreglan reyndi ítrekað að komast yfir frekari gögn frá dýraverndunarsamtökunum sem uppljóstruðu málinu en allt kom fyrir ekki.

Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi í samtali við mbl.is.

Hann segir samtökin hafa skýlt sér á bak við þýsk lög sem krefji þau ekki til þess að afhenda frekari gögn.

Málið var fellt niður í lok janúar á þessu ári.

 „Málinu var vísað frá vegna skorts á gögnum. Það var fellt í lok janúar á þessu ári. Við vorum með það í ár í skoðun og það fengust ekki gögn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir,“ segir Sveinn.

Vildu ekki afhenda MAST óklippt efni

Upphaf málsins má rekja til þess þegar dýraverndunarsamtökin AWF/​TSB (Ani­mal Welfare Foundati­on/​Tierschutzbund Zürich) birtu myndband þann 22. Nóvember 2021 sem sýndi myndbúta af meðferð hryssna við blóðtöku hér á landi.

Matvælastofnun tók málið til skoðunar og sögðust líta málið alvarlegum augum en tilraunir voru gerðar til þess að nálgast myndefnið óklippt frá dýraverndunarsamtökunum. MAST sagði samtökin hafa hafnað því að senda þeim óklippt efni en greint frá því hvenær upptökur á efninu fóru fram.

Máli vísað til lögreglu í janúar 2022

Greint var frá því að rannsókn MAST hefði leitt í ljós hvar atvikin áttu sér stað og hver hafi átt hlut í máli.

„Við rann­sókn­ina leitaði stofn­un­in eft­ir skýr­ing­um og af­stöðu fólks­ins til þess sem fram kem­ur í mynd­bönd­un­um. Eins og áður seg­ir hef­ur stofn­un­in ekki aðgang að óklipptu mynd­efni sem tak­mark­ar mögu­leika henn­ar á að meta al­var­leika brot­anna og ger­ir stofn­un­inni því ókleift að rann­saka málið til fulln­ustu,“ sagði í tilkynningu vegna málsins í janúar 2022 þegar því var vísað til lögreglu.

Í febrúar 2022 var svo greint frá því að hrossabændur hefðu sagt upp samn­ing­um sín­um við líftæknifyr­ir­tæk­ið Ísteka ehf., sem vinn­ur horm­óna­lyf fyr­ir svín úr blóði fylfullra mera. Samkvæmt MAST er blóðtakan sjálf í ábyrgð fyrirtækisins en dýralæknar á vegum þess sjái um framkvæmd hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert