Seldist á margfalt hærra verði

Málverkið af Reyðarfirði seldist á 390 þúsund krónur.
Málverkið af Reyðarfirði seldist á 390 þúsund krónur. Ljósmynd/Fjarðabyggð

Málverk af Eskifirði og Reyðarfirði seldist á 390 þúsund krónur hjá Gallerí Fold í gærkvöldi. Verkið var metið á 20 til 30 þúsund krónur og seldist það því á margfalt hærra verði en búist var við. Höfundur er ókunnur.

„Já, ég rak augun í þetta í gærkvöldi,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, viðskipta­fræðing­ur og fram­kvæmda­stjóri Fold upp­boðshúss, þegar blaðamaður mbl.is hringdi til að spyrjast fyrir um verkið nú í morgun.

Uppfært:

Víst þykir að sá er málaði myndina var staddur á Eskifirði, þ.e. sjónarhornið er þaðan.

Eskifjörður er því í forgrunni og fjöllin fjærst í sunnanverðum Reyðarfirði. Nesið sem skilur að Eskifjörð og Reyðarfjörð heitir Hólmanes og er það nær og til hægri á myndinni. Á því rís Hólmaborgin, eins og segir í ábendingu sem barst mbl.is.

Skipin tvö næst eru svo innan Eskifjarðar og því má segja að myndin sé frá Eskifirði og Reyðarfirði.

Áður var hermt, eftir Gallerí Fold, að málverkið væri af Reyðarfirði.

Málverkið sem seldist í gærkvöldi.
Málverkið sem seldist í gærkvöldi.

Hart barist

Uppboðinu lauk klukkan 20.21 í gærkvöldi og hart var barist um verkið þar til fimm mínútum áður en fresturinn rann út. 

Á sjö mínútum, frá 20.09 til 20.16, hækkuðu tilboðin úr 280 þúsundum upp í loka verðið, 390 þúsund, jafnt og þétt og voru þar tveir sem börðust um verkið.

Tilfinningarnar ráða oft för

Jóhann segir að það gerist af og til að verk af smærri bæjum úti á landi seljist á margfalt hærra verði en þau eru metin á. Þar geti oft tilfinningarnar ráðið för. 

„Þetta er fallegt verk af Reyðarfirði. Oft þegar við fáum verk eru af ákveðnum stöðum, eða verk sem fólk getur bundist tilfinningaböndum við, þá verður einhver áhugi fyrir,“ segir Jóhann. 

Hann segir að þetta gerist af og til og stök verk stökkvi upp í verði. „Þá eru oft tveir eða þrír sem tengja við staðinn eða myndefnið. Ég myndi telja að þetta væri eitthvað í þeim dúr. Það gæti auðvitað líka verið, og hefur komið fyrir, að við erum með verk eftir einhvern sem fáir eða nokkrir vita eftir hvern er. Þá er fólk tilbúið til að borga meira fyrir það því það telur að það sé eftir einhvern höfund sem er ekki merktur. Þá er fólk að hugsa það í hagnaðarskyni síðar,“ segir Jóhann. 

Jóhann segist ekki hafa séð verkið í persónu en að það sé líklega frá því snemma á síðustu öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka